Ástæður hrunsins og helstu ábyrgðarmenn

Þetta er lengri og ítarlegri grein en sú sem birtist í Fréttatímanum í dag 5. apríl, Skírdag. Í eldra bloggi hef ég farið betur í saumana á sumum þessara atriða. Veigaminni grein hefur áður birst þar sem minnst var á talsvert af þessum atriðum sem listuð eru hér.

Rannsóknarskýrslan árið 2010 og Landsdómur 2012 gáfu mjög góða innsýn í viðskipta- og stjórnmálaumhverfi liðinna ára. Hér verða taldar til helstu ástæður hrunsins á sínum tíma, margar með innbyrðis tengsl og í alþjóðlegu samhengi. Heimildarmyndin "Inside job" sem sýnd var í janúar síðastliðnum á RÚV er á vissan hátt kveikja að þessum skrifum. Þá mynd vill höfundur hvetja alla til að sjá, sem sáu hana ekki. Hún minnir óneitanlega á ummæli fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta".

1. Rangt mannaval.  Mannaráðningar á Íslandi, hafa allt of oft verið "annars flokks" ráðningar, eða B ráðningar, þar sem fólk hefur verið ráðið vegna ættartengsla, pólitískra viðhorfa eða vináttu í stað hæfis. Sem dæmi má nefna að fjármálaráðherra í hrunstjórninni var dýralæknir og viðskiptaráðherra með B.A í sögu og heimspeki.

2. Skortur á ábyrgð eigenda og stjórna bankanna. Eigendur banka létu bankana lána fyrirtækjum sínum gríðarlegar upphæðir. Þannig námu lán til fárra aðila jafnvel yfir 50% af eiginfé viðkomandi banka. Blekkingum var beitt með leppfyrirtækjum til að sniðganga gildandi reglur, eða eins og segir í laginu "þeir urðu Íslandi að falli".

3. Skortur á eftirliti. Skortur var og hefur verið á nægjanlega öflugu eftirliti á sviði efnahagsmála þ.e. Fjármála-, samkeppnis- og skattaeftirliti. Eftirliti hefur einnig verið áfátt á fleiri sviðum eins og nýleg dæmi sanna (sbr. iðnaðarsaltið og brjóstapúðana). Jafnframt hefur vantað eðlilegar reglur og ramma sem stuðla að heilbrigðara viðskiptalífi og koma í veg fyrir kennitöluflakk og þvíumlíkt.

4. Afnám hafta á fjármálakerfinu þar sem fordæmið var sótt til Bandaríkjanna.

5. Háir stýrivextir og fáránlega hátt vaxtastig almennt. Hingað leitaði fjármagn ávöxtunar í hagstæðu umhverfi, sem aftur hækkaði vexti og úr varð vítahringur, eins og leikhús fáránleikans, fjármagn núna fast á Íslandi með gjaldeyrishöftum.

6. Minnkun og afnám bindiskyldu hjá Seðlabanka, varð til þess að Seðlabankinn var nær tómur þegar á reyndi!

7. Ábyrgðarleysi lögfræðinga og endurskoðenda. Sumir þeirra gengu erinda eigenda banka og stórfyrirtækja. Þetta gerðist á Íslandi en einnig erlendis svo sem í Bandaríkjunum. 

8. Röng aðferðafræði við yfirtöku ríkisins á Glitni banka. Margt var þar ábótavant og olli síðan keðjuverkun. Þó sýndi rannsóknarskýrslan að bönkunum yrði ekki bjargað á þessum tímapunkti. 

9. Aðgerðaleysi þingmanna. Alþingismenn eiga að setja heilbrigðar leikreglur fyrir samfélagið og sjá til þess að stjórnsýslan annist góða framkvæmd þeirra. Ljóst er að stjórnmálamennirnir brugðust, og þurfa þeir að að taka upp betri vinnubrögð. Enn skortir nokkuð á að allir þingmenn hafi gert hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar gerðir þeirra í aðdraganda hrunsins. Vonandi verður slíkt skoðað vafningslaust betur. 

10. Hamfarir og fjármálakreppa sem riðu yfir alþjóðlegt hagkerfi einkum haustið 2008. Bankakerfið í okkar litla og opna hagkerfi, með veikum gjaldmiðli, var gríðarlega stórt hlutfall af landsframleiðslu eða um 12,5 sinnum stærra. Gjaldmiðillinn var og er mjög veikur og minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi. Slíkt er ekki ávísun á stöðugleika og gerir hagkerfið berskjaldað. Sem stendur er genginu haldið uppi með gjaldeyrishöftum. 

11. Ekki var hlustað á trúverðuga erlenda sérfræðinga.  Góðar greiningar þeirra voru rakkaðar niður, jafnvel af málsmetandi stjórnmálamönnum sem og fjölmiðlum, sem sumir voru reknir af eigendum bankanna. 

12. Hvítþvottur ráðgjafa og matsfyrirtækja. Hagsmunaaðilar og fleiri létu gera skýrslur sem áttu að sýna  stöðugleika íslenska efnahagslífsins og bankakerfisins. Þar má nefna skýrslu unna af Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og núverandi alþingismanni og skýrslu prófessors Mishkin - sem fékk greiddar milljónir frá Viðskiptaráði Íslands. Matsfyrirtæki svo sem Standard & Poor gáfu út skýrslur sem áttu að sýna að í raun væri allt í lagi með bankana.

13. Eiginhagsmunir stjórnmálamanna.  Málsmetandi stjórnmálamenn birtust og viðhöfðu stór orð um skýrslur erlendu aðilana sem vöruðu við íslenska bankakerfinu.  Þar má helst nefna fleyg orð þáverandi varaformanns eins stjórnmálaflokksins og stjórnarflokks í ágúst 2010, "það þarf að senda þessa menn í endurhæfingu á skólabekk"!.  Maki viðkomandi var á sama tíma einn af lykilstjórnendum eins af bönkunum með milljónir í laun á mánuði, auk arðgreiðslna af hlutabréfum sem aldrei var greitt fyrir.

14. Skortur á lögum um fjölmiðla. Þótt frumvarp það til fjölmiðlalaga sem hafnað var á sínum tíma hafi ekki verið gallalaust, verður því tæpast neitað að nauðsynlegt sé að setja slík lög   Eignarhald ákveðinna aðila á fjölmiðlum var ein af ástæðum andvaraleysis þeirra. Eigendurnir gátu haft mikil áhrif á almenningsálitið og sveigt það að sér í hag. 

15. Virðingarleysi fyrir lögum og rétti.  Mörgum þykir því miður ekki tiltökumál að fara á sveig við hlutina eins og dæmin sýna. Til marks um slíkt er að þingmenn sem hafa brotið lög eru endurkjörnir án vandkvæða.

16. Menntun og fjármálalæsi ábótavant. Almenningur varð auðvelt fórnarlamb fjármálastofnanna þegar farið var að bjóða  óskynsamlegar lántökur. 90% lán, sem var eitt af kosningaslagorðum Framsóknarflokksins á sínum tíma, reyndist þjóðinni dýrkeypt. 

17. Peningagræðgi og efnishyggja.  Almenn efnishyggja mjög mikil, og þar með löngunin eftir að eignast bifreiðar, græjur og hluti án þess að eiga fyrir hlutunum.

18. Hagfræðilegar blekkingar. Fólki var talin trú um að Íslendingar væru svo afskaplega ríkir.! Höfundur skrifaði grein um þá hagfræðilegu blekkingu í Morgunblaðinu árið 2006 undir nafninu "Íslendingar sjötta ríkasta þjóð í heimi". Þar kemur fram að mikil vinna og vinnuframlag hefur hér mest að segja. 

19. Skortur á ákveðnu viðskiptasiðferði og skattfræðiþekkingu. Gráa svæðið var stórt, menn komust upp með ótrúlega hluti í viðskiptaumhverfinu. Hluti almennings virðist einnig ekki gera sér grein fyrir til hvers það er að greiða skatta, né skilur orsakasamhengið, að meiri þjónusta þýðir meiri skatta og öfugt.

20.  Í þjóðareðlinu og meðal ráðamanna er tilhneiging til að "byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í" eða hann jafnvel orðin fullur af börnum!. Aðgerðir eru oft eftirábyggjandi í stað fyrirbyggjandi. 

21. Brotalamir í hagstjórn, einkum frá árinu 2000 auk veikrar stjórnsýslu. Aðgerðir stjórnvalda voru þensluhvetjandi, skortur var á aðhaldi í ríkisfjármálum og ýmis hagfræðileg lögmál í raun brotin. Að mörgu leyti var um að ræða gervihagvöxt keyrðan upp með lántökum. 

22. Sala Landsbankans og Búnaðarbankans. Aðferðin sem beitt var við söluna og valið á kaupendum var ámælisvert. Þau vinnubrögð urðu meðal annars til þess að formaður einkavæðingarnefndar sagði upp stöðu sinni með orðunum „Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum".  

23. Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Um var að ræða hlutlausan greiningaraðila. Í staðinn tóku svokallaðir "sérfræðingar" hjá  greiningardeildum bankanna við þjóðhagsspám! 

24. Gjafakvótakerfið. Hvort tveggja var gallað, aðferðafræðin og framkvæmdin. Höfundur er þó ekki á móti kvóta á aðgengi að fiskimiðum eða öðrum auðlindum.   

Undirritaður leyfir sér að vera þokkalega bjartsýnn fyrir hönd hins nýja Íslands, og vonar að viðsnúningur hefjist loks á þessu ári, enda býr mikill kraftur og áræði í þjóðinni, þrátt fyrir vinnu- og ofurvaxtaþrælkun. Landið er ríkt af auðlindum, mannauð, orku, gjöfulum fiskimiðum og engin stríð hafa verið háð hérlendis sem eyðilagt hafa innviði.  Slæmir stjórnendur, eftirlit og fleira hér að ofan talið er vandamálið. Þörf á langtímastefnumótun, fyrirbyggjandi aðgerðum og öguðum vinnubrögðum. Auka þarf siðfræðikennslu og innrætingu ábyrgðarkenndar til mótvægis við óhefta efnishyggju. Þá er mikilvægt að grunnþekking fjármála og hagfræði sé hluti af námi bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Fjöldi fólks á um sárt að binda sökum mistaka sem hér hafa verið talin upp. Á blogginu hakonthor.blog.is, hefur verið farið ítarlegar í saumana á einstökum atriðum hér, m.a. í áður birtum greinum í blöðum eða á vef. Til að ná sæmilegri þjóðarsátt er nauðsynlegt að þeir svokölluðu útrásarvíkingar og aðrir sem rænt hafa þjóðina greiði sem allra mest til baka, og allt verði sótt sem hægt er að sækja með öllum tiltækum ráðum. Sú leið er æskilegri en að dæma þessa menn til langrar vistar á kostnað skattgreiðenda á hálfgerðum hvíldarheimilum svo sem Kvíabryggju. Ég tek undir með Ólafi Kristinssyni hdl., sem lagði til að einn þessara manna framseldi hlutdeild sína í Actavis til þjóðarinnar. Réttlátara er að ýmsum sökudólgum blæði en að almenning blæði gegndarlaust.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér vantar lykilatriðið. EES. Þ.e. fjórfrelsið, frjáls flutningur fjármagns. Þetta varð til þess að háir stýrivextir verkuðu öfugt þar sem hingað leitaði fjármagn ávöxtunar í hagstæðu umhverfi. Þetta frelsi veldur því einnig að peningar flýja jafn hratt út þegar illa árar, sem er einmitt það sem er að knésetja miðjarðarhafslöndin í ESB.  Þess vegna eur gjaldeyrirhöftin hluti af neyðarlögum hér.  Síðast en ekki síst, þá var það líka afnám bindiskyldu, sem gerði það að verkum að Seðlabankinn var krúnk þegar á reyndi.

Þetta eru grunnástæður hrunsins. Jarðvegurinn var fyrir hendi, restin var heimskra manna ráð.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2012 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband