Íslendingar sjötta ríkasta þjóð í heimi

Grein úr Morgunblaðinu frá 25.maí 2006 

ÍSLAND SJÖTTA RÍKASTA ÞJÓÐ Í HEIMI!

ÞETTA heyrist oft í umræðunni og er skellt fram til að sýna hvað við höfum það gott, enda virkar það vel og sefandi í eyrum fólks. Miðað við verga landsframleiðslu á hvern íbúa er þetta rétt að miklu leyti en yfirleitt er aldrei greint hvað er á bak við tölurnar, sem er meðal annars að

1. Vinnuvikan er lengri á Íslandi en í flestum Evrópulöndum og talsvert yfir öðrum Norðurlandaþjóðum og atvinnuþátttakan er mest á Íslandi af löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

2. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði er hæst á Íslandi af ríkjum OECD.

3. Börn byrja fyrr að vinna hérlendis og allmörg vinna með skóla,í fríum og svo framvegis. Þessi stærð mælist því hjá okkur umfram aðrar þjóðir.

4. Atvinnuþátttaka eldra fólks er hvergi meiri ef borið er saman við ríki OECD. Til að mynda er hún 53% á Íslandi í aldurshópnum 65-69 ára, lægst er hún í Frakklandi eða 3%, en meðaltal OECD ríkja er um 20%. Fleiri þættir varðandi vinnutíma spila reyndar inn í, t.d. er í sumum löndum neysluhlé ekki reiknuð með í heildartíma, heldur nettótími.

Einnig er starfsfólk á Íslandi almennt styttri tíma að komast til vinnu en í flestum löndum. Mikil atvinnuþátttaka og langur vinnudagur bitnar hinsvegar á fjölskyldulífinu. Þannig gefst t.d. minni tími til að sinna börnum og hlúa að samböndum sem getur leitt til togstreitu og er ein af orsökum margra sambandsslita og hjónaskilnaða. Mikil atvinnuþátttaka og hagvöxtur getur því skapað ýmiskonar félagslegan kostnað.

Neysluhyggjan, svört starfsemi o.fl., er því miður sívaxandi á Íslandi. Gjaldþrot fyrirtækja og siðleysi margra í því sambandi, með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur og þjóðina er einnig meiri en meðal annarra þjóða Evrópu. Hjá "ríku þjóðinni" er erfitt að manna láglaunastörf á þenslutímum, þetta sjáum við t.d. í leikskólum þar sem starfsmannavelta er mikil og útlendingar sinna starfinu í vaxandi mæli sem er varla til að auka málþroska barna. Margir hæfileikaríkustu kennararnir sækja í aðrar og betur launaðar atvinnugreinar. Aðbúnaði eldra fólks er víða ábótavant og umönnun þeirra að miklu leyti sinnt af útlendingum í láglaunastörfum en hinsvegar er starfsmannavelta há.

Er ekki eðlilegt að "sjötta ríkasta þjóð í heimi" geti búið öldruðum áhyggjulaust ævikvöld? Það er ekki sæmandi að um 1000 aldraðir þurfi að búa 2 eða fleiri saman í herbergi af því að það er ekki til rými fyrir þá? Ákveðin bylting hugarfarsins og stefnumótun með langtímasýn er nauðsynleg í þessu heildarsamhengi.

Gott dæmi um árangur af slíku er hjá Finnum, þar sem mikil áhersla á fjármagn til menntakerfisins er að skila miklum arði. Til lengri tíma litið eykur það framleiðni vinnuafls, sem er einn drifkraftur langtímafarsældar og samkeppnishæfni þjóðar. Góður kennari er gulls ígildi og veganesti út í lífið.

Hér gefst ekki tími né pláss til að kafa í einstaka hluti né fara í fræðilega útreikninga. Einhverjar tölur eru háðar lítilsháttar skekkjumörkum sökum heimilda frá 2003-5 En heildarmyndin og staðreyndirnar tala sínu máli.
(ég ítreka að greinin er frá 2006).

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"svört starfsemi o.fl., er því miður sívaxandi á Íslandi."

Því miður? nei. Sem betur fer.

Svört starfsemi er leið fólksins framhjá hverslags villum í kerfinu. Því mannfjandsalegra sem kerfið er, því meiri svort starfsemi er stunduð.

"Hlutfall kvenna á vinnumarkaði er hæst á Íslandi af ríkjum OECD."

Ástæða þess að það vantar endalaust fólk á leikskóla.

Fyrir 30 árum gat stöðumælavörður haldið uppi fjölskildu, búið í 150 fermetra húsi og ekið um á Landrover.

Það eina sem breyttist í raun var aukin skattheimta.  Smám saman, yfir langan tíma.

Ásgrímur Hartmannsson, 29.12.2024 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband