29.12.2024 | 12:11
Íslendingar sjötta ríkasta þjóð í heimi
Grein úr Morgunblaðinu frá 25.maí 2006
ÍSLAND SJÖTTA RÍKASTA ÞJÓÐ Í HEIMI!
ÞETTA heyrist oft í umræðunni og er skellt fram til að sýna hvað við höfum það gott, enda virkar það vel og sefandi í eyrum fólks. Miðað við verga landsframleiðslu á hvern íbúa er þetta rétt að miklu leyti en yfirleitt er aldrei greint hvað er á bak við tölurnar, sem er meðal annars að
1. Vinnuvikan er lengri á Íslandi en í flestum Evrópulöndum og talsvert yfir öðrum Norðurlandaþjóðum og atvinnuþátttakan er mest á Íslandi af löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
2. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði er hæst á Íslandi af ríkjum OECD.
3. Börn byrja fyrr að vinna hérlendis og allmörg vinna með skóla,í fríum og svo framvegis. Þessi stærð mælist því hjá okkur umfram aðrar þjóðir.
4. Atvinnuþátttaka eldra fólks er hvergi meiri ef borið er saman við ríki OECD. Til að mynda er hún 53% á Íslandi í aldurshópnum 65-69 ára, lægst er hún í Frakklandi eða 3%, en meðaltal OECD ríkja er um 20%. Fleiri þættir varðandi vinnutíma spila reyndar inn í, t.d. er í sumum löndum neysluhlé ekki reiknuð með í heildartíma, heldur nettótími.
Einnig er starfsfólk á Íslandi almennt styttri tíma að komast til vinnu en í flestum löndum. Mikil atvinnuþátttaka og langur vinnudagur bitnar hinsvegar á fjölskyldulífinu. Þannig gefst t.d. minni tími til að sinna börnum og hlúa að samböndum sem getur leitt til togstreitu og er ein af orsökum margra sambandsslita og hjónaskilnaða. Mikil atvinnuþátttaka og hagvöxtur getur því skapað ýmiskonar félagslegan kostnað.
Neysluhyggjan, svört starfsemi o.fl., er því miður sívaxandi á Íslandi. Gjaldþrot fyrirtækja og siðleysi margra í því sambandi, með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur og þjóðina er einnig meiri en meðal annarra þjóða Evrópu. Hjá "ríku þjóðinni" er erfitt að manna láglaunastörf á þenslutímum, þetta sjáum við t.d. í leikskólum þar sem starfsmannavelta er mikil og útlendingar sinna starfinu í vaxandi mæli sem er varla til að auka málþroska barna. Margir hæfileikaríkustu kennararnir sækja í aðrar og betur launaðar atvinnugreinar. Aðbúnaði eldra fólks er víða ábótavant og umönnun þeirra að miklu leyti sinnt af útlendingum í láglaunastörfum en hinsvegar er starfsmannavelta há.
Er ekki eðlilegt að "sjötta ríkasta þjóð í heimi" geti búið öldruðum áhyggjulaust ævikvöld? Það er ekki sæmandi að um 1000 aldraðir þurfi að búa 2 eða fleiri saman í herbergi af því að það er ekki til rými fyrir þá? Ákveðin bylting hugarfarsins og stefnumótun með langtímasýn er nauðsynleg í þessu heildarsamhengi.
Gott dæmi um árangur af slíku er hjá Finnum, þar sem mikil áhersla á fjármagn til menntakerfisins er að skila miklum arði. Til lengri tíma litið eykur það framleiðni vinnuafls, sem er einn drifkraftur langtímafarsældar og samkeppnishæfni þjóðar. Góður kennari er gulls ígildi og veganesti út í lífið.
Hér gefst ekki tími né pláss til að kafa í einstaka hluti né fara í fræðilega útreikninga. Einhverjar tölur eru háðar lítilsháttar skekkjumörkum sökum heimilda frá 2003-5 En heildarmyndin og staðreyndirnar tala sínu máli.
(ég ítreka að greinin er frá 2006).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2012 | 19:26
Ástæður hrunsins og helstu ábyrgðarmenn
Þetta er lengri og ítarlegri grein en sú sem birtist í Fréttatímanum í dag 5. apríl, Skírdag. Í eldra bloggi hef ég farið betur í saumana á sumum þessara atriða. Veigaminni grein hefur áður birst þar sem minnst var á talsvert af þessum atriðum sem listuð eru hér.
Rannsóknarskýrslan árið 2010 og Landsdómur 2012 gáfu mjög góða innsýn í viðskipta- og stjórnmálaumhverfi liðinna ára. Hér verða taldar til helstu ástæður hrunsins á sínum tíma, margar með innbyrðis tengsl og í alþjóðlegu samhengi. Heimildarmyndin "Inside job" sem sýnd var í janúar síðastliðnum á RÚV er á vissan hátt kveikja að þessum skrifum. Þá mynd vill höfundur hvetja alla til að sjá, sem sáu hana ekki. Hún minnir óneitanlega á ummæli fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta".
1. Rangt mannaval. Mannaráðningar á Íslandi, hafa allt of oft verið "annars flokks" ráðningar, eða B ráðningar, þar sem fólk hefur verið ráðið vegna ættartengsla, pólitískra viðhorfa eða vináttu í stað hæfis. Sem dæmi má nefna að fjármálaráðherra í hrunstjórninni var dýralæknir og viðskiptaráðherra með B.A í sögu og heimspeki.
2. Skortur á ábyrgð eigenda og stjórna bankanna. Eigendur banka létu bankana lána fyrirtækjum sínum gríðarlegar upphæðir. Þannig námu lán til fárra aðila jafnvel yfir 50% af eiginfé viðkomandi banka. Blekkingum var beitt með leppfyrirtækjum til að sniðganga gildandi reglur, eða eins og segir í laginu "þeir urðu Íslandi að falli".
3. Skortur á eftirliti. Skortur var og hefur verið á nægjanlega öflugu eftirliti á sviði efnahagsmála þ.e. Fjármála-, samkeppnis- og skattaeftirliti. Eftirliti hefur einnig verið áfátt á fleiri sviðum eins og nýleg dæmi sanna (sbr. iðnaðarsaltið og brjóstapúðana). Jafnframt hefur vantað eðlilegar reglur og ramma sem stuðla að heilbrigðara viðskiptalífi og koma í veg fyrir kennitöluflakk og þvíumlíkt.
4. Afnám hafta á fjármálakerfinu þar sem fordæmið var sótt til Bandaríkjanna.
5. Háir stýrivextir og fáránlega hátt vaxtastig almennt. Hingað leitaði fjármagn ávöxtunar í hagstæðu umhverfi, sem aftur hækkaði vexti og úr varð vítahringur, eins og leikhús fáránleikans, fjármagn núna fast á Íslandi með gjaldeyrishöftum.
6. Minnkun og afnám bindiskyldu hjá Seðlabanka, varð til þess að Seðlabankinn var nær tómur þegar á reyndi!
7. Ábyrgðarleysi lögfræðinga og endurskoðenda. Sumir þeirra gengu erinda eigenda banka og stórfyrirtækja. Þetta gerðist á Íslandi en einnig erlendis svo sem í Bandaríkjunum.
8. Röng aðferðafræði við yfirtöku ríkisins á Glitni banka. Margt var þar ábótavant og olli síðan keðjuverkun. Þó sýndi rannsóknarskýrslan að bönkunum yrði ekki bjargað á þessum tímapunkti.
9. Aðgerðaleysi þingmanna. Alþingismenn eiga að setja heilbrigðar leikreglur fyrir samfélagið og sjá til þess að stjórnsýslan annist góða framkvæmd þeirra. Ljóst er að stjórnmálamennirnir brugðust, og þurfa þeir að að taka upp betri vinnubrögð. Enn skortir nokkuð á að allir þingmenn hafi gert hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar gerðir þeirra í aðdraganda hrunsins. Vonandi verður slíkt skoðað vafningslaust betur.
10. Hamfarir og fjármálakreppa sem riðu yfir alþjóðlegt hagkerfi einkum haustið 2008. Bankakerfið í okkar litla og opna hagkerfi, með veikum gjaldmiðli, var gríðarlega stórt hlutfall af landsframleiðslu eða um 12,5 sinnum stærra. Gjaldmiðillinn var og er mjög veikur og minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi. Slíkt er ekki ávísun á stöðugleika og gerir hagkerfið berskjaldað. Sem stendur er genginu haldið uppi með gjaldeyrishöftum.
11. Ekki var hlustað á trúverðuga erlenda sérfræðinga. Góðar greiningar þeirra voru rakkaðar niður, jafnvel af málsmetandi stjórnmálamönnum sem og fjölmiðlum, sem sumir voru reknir af eigendum bankanna.
12. Hvítþvottur ráðgjafa og matsfyrirtækja. Hagsmunaaðilar og fleiri létu gera skýrslur sem áttu að sýna stöðugleika íslenska efnahagslífsins og bankakerfisins. Þar má nefna skýrslu unna af Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og núverandi alþingismanni og skýrslu prófessors Mishkin - sem fékk greiddar milljónir frá Viðskiptaráði Íslands. Matsfyrirtæki svo sem Standard & Poor gáfu út skýrslur sem áttu að sýna að í raun væri allt í lagi með bankana.
13. Eiginhagsmunir stjórnmálamanna. Málsmetandi stjórnmálamenn birtust og viðhöfðu stór orð um skýrslur erlendu aðilana sem vöruðu við íslenska bankakerfinu. Þar má helst nefna fleyg orð þáverandi varaformanns eins stjórnmálaflokksins og stjórnarflokks í ágúst 2010, "það þarf að senda þessa menn í endurhæfingu á skólabekk"!. Maki viðkomandi var á sama tíma einn af lykilstjórnendum eins af bönkunum með milljónir í laun á mánuði, auk arðgreiðslna af hlutabréfum sem aldrei var greitt fyrir.
14. Skortur á lögum um fjölmiðla. Þótt frumvarp það til fjölmiðlalaga sem hafnað var á sínum tíma hafi ekki verið gallalaust, verður því tæpast neitað að nauðsynlegt sé að setja slík lög Eignarhald ákveðinna aðila á fjölmiðlum var ein af ástæðum andvaraleysis þeirra. Eigendurnir gátu haft mikil áhrif á almenningsálitið og sveigt það að sér í hag.
15. Virðingarleysi fyrir lögum og rétti. Mörgum þykir því miður ekki tiltökumál að fara á sveig við hlutina eins og dæmin sýna. Til marks um slíkt er að þingmenn sem hafa brotið lög eru endurkjörnir án vandkvæða.
16. Menntun og fjármálalæsi ábótavant. Almenningur varð auðvelt fórnarlamb fjármálastofnanna þegar farið var að bjóða óskynsamlegar lántökur. 90% lán, sem var eitt af kosningaslagorðum Framsóknarflokksins á sínum tíma, reyndist þjóðinni dýrkeypt.
17. Peningagræðgi og efnishyggja. Almenn efnishyggja mjög mikil, og þar með löngunin eftir að eignast bifreiðar, græjur og hluti án þess að eiga fyrir hlutunum.
18. Hagfræðilegar blekkingar. Fólki var talin trú um að Íslendingar væru svo afskaplega ríkir.! Höfundur skrifaði grein um þá hagfræðilegu blekkingu í Morgunblaðinu árið 2006 undir nafninu "Íslendingar sjötta ríkasta þjóð í heimi". Þar kemur fram að mikil vinna og vinnuframlag hefur hér mest að segja.
19. Skortur á ákveðnu viðskiptasiðferði og skattfræðiþekkingu. Gráa svæðið var stórt, menn komust upp með ótrúlega hluti í viðskiptaumhverfinu. Hluti almennings virðist einnig ekki gera sér grein fyrir til hvers það er að greiða skatta, né skilur orsakasamhengið, að meiri þjónusta þýðir meiri skatta og öfugt.
20. Í þjóðareðlinu og meðal ráðamanna er tilhneiging til að "byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í" eða hann jafnvel orðin fullur af börnum!. Aðgerðir eru oft eftirábyggjandi í stað fyrirbyggjandi.
21. Brotalamir í hagstjórn, einkum frá árinu 2000 auk veikrar stjórnsýslu. Aðgerðir stjórnvalda voru þensluhvetjandi, skortur var á aðhaldi í ríkisfjármálum og ýmis hagfræðileg lögmál í raun brotin. Að mörgu leyti var um að ræða gervihagvöxt keyrðan upp með lántökum.
22. Sala Landsbankans og Búnaðarbankans. Aðferðin sem beitt var við söluna og valið á kaupendum var ámælisvert. Þau vinnubrögð urðu meðal annars til þess að formaður einkavæðingarnefndar sagði upp stöðu sinni með orðunum Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum".
23. Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Um var að ræða hlutlausan greiningaraðila. Í staðinn tóku svokallaðir "sérfræðingar" hjá greiningardeildum bankanna við þjóðhagsspám!
24. Gjafakvótakerfið. Hvort tveggja var gallað, aðferðafræðin og framkvæmdin. Höfundur er þó ekki á móti kvóta á aðgengi að fiskimiðum eða öðrum auðlindum.
Undirritaður leyfir sér að vera þokkalega bjartsýnn fyrir hönd hins nýja Íslands, og vonar að viðsnúningur hefjist loks á þessu ári, enda býr mikill kraftur og áræði í þjóðinni, þrátt fyrir vinnu- og ofurvaxtaþrælkun. Landið er ríkt af auðlindum, mannauð, orku, gjöfulum fiskimiðum og engin stríð hafa verið háð hérlendis sem eyðilagt hafa innviði. Slæmir stjórnendur, eftirlit og fleira hér að ofan talið er vandamálið. Þörf á langtímastefnumótun, fyrirbyggjandi aðgerðum og öguðum vinnubrögðum. Auka þarf siðfræðikennslu og innrætingu ábyrgðarkenndar til mótvægis við óhefta efnishyggju. Þá er mikilvægt að grunnþekking fjármála og hagfræði sé hluti af námi bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Fjöldi fólks á um sárt að binda sökum mistaka sem hér hafa verið talin upp. Á blogginu hakonthor.blog.is, hefur verið farið ítarlegar í saumana á einstökum atriðum hér, m.a. í áður birtum greinum í blöðum eða á vef. Til að ná sæmilegri þjóðarsátt er nauðsynlegt að þeir svokölluðu útrásarvíkingar og aðrir sem rænt hafa þjóðina greiði sem allra mest til baka, og allt verði sótt sem hægt er að sækja með öllum tiltækum ráðum. Sú leið er æskilegri en að dæma þessa menn til langrar vistar á kostnað skattgreiðenda á hálfgerðum hvíldarheimilum svo sem Kvíabryggju. Ég tek undir með Ólafi Kristinssyni hdl., sem lagði til að einn þessara manna framseldi hlutdeild sína í Actavis til þjóðarinnar. Réttlátara er að ýmsum sökudólgum blæði en að almenning blæði gegndarlaust.
Bloggar | Breytt 5.4.2012 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2012 | 19:04
Mið Austurlönd, Líbanon, Sýrland og Jórdanía, Palestína auk Ísrael
Eftir vel heppnaða ferð 2010, lagði ég leiðina til Arabalandana í Febrúar 2011 í 3ja vikna ferð, þar sem ég var einn á ferð, en hitti svo Helga ferðafélaga minn í Ísrael þar sem var síðustu 9 dagana. Fór á milli 3ja landamæra,sem gat tekið sinn tíma og heimsótti allar höfuðborgirnar, breiddi aðeins út byltingarandann o.fl. Skrifaði um ferðina grein og myndir auk sjónvarpsviðtals.
Minni hér loks á blogginu á þessar greinar og myndir. Var fróðlegt að fara á milli þessara landa og heimsækja þau eftir að hafa verið í Ísrael árið áður. Var meðal annars rændur í Líbanon af einum innfæddum sem gerði sig vinalegan við mig! Náði honum og vitorðsmanni hans eftir smá hasar, ryskingar o.fl. þar sem ég hljóp vitorðsmanninn uppi.
Var ágætt að koma til Ísrael eftir Arabalöndin, vestrænna þar og gaman að sjá kvenfrelsið þar, m.a. tekin í talsverða yfirheyrslu af innfæddri í öryggisgæslu á landamærunum. Heimsótti einnig í Jórdaníu SOS barnaþorp sem fyrirtæki okkar styrkir og svo fór ég í góða dagsferð frá Ísrael yfir til Ramallah á Vesturbakkanum.
Á www.Visitorsguide.is,dk,no,es,it ... eða hverri sem er af vefsíðum okkar eru upplýsingar um ferðina og myndir. Fjórar efstu greinarnar og myndir.
Set fljótlega inn upplýsingar um ferðina 2012 til suðaustur Asíu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2012 | 18:49
Mið Austurlönd einkum Ísrael, einnig Egyptland og Jórdanía.
Fór í einkar góða og fróðlega ferð til Ísrael þar sem ég var í um 14 daga og svo dagsferðir til Jórdaníu m.a. til Petra og svo til Egyptlands. Fróðleg ferð og eftirminnileg. Fór einn en kynntist talsverðu af fólki og bjó hjá innfæddum í Ísrael, sem gisti hjá í gegnum couchsurfing.org vefsíðuna.
Skrifaði ferðasögu og fróðleik um ferðina og hún er á www.Visitorsguide.is og fjöldi mynda. Undir destinations abroad - þar sem hægt er að velja Ísrael eða Jórdaníu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2010 | 19:34
17 veigamiklar ástæður hrunsins og helstu ábyrgðamenn
Greinin er aðeins lengri útgáfa greinar sem ég skrifaði í lok apríl 2010 og bíður enn birtingar hjá Fréttablaðinu þann 17.mai, enda talsverður biðtími vegna innsendra greina.
Rannsóknarskýrslan nýútkomna var mjög góð kortlagning á viðskipta- og stjórnmálaumhverfi liðinna ára. Hér verða taldar til margar ástæður hrunsins, margar með innbyrðis tengsl.
1. Mannauður og mannval
Mannaráðningar hafa í gegnum tíðina oft verið B ráðningar. Þar sem fólk er ráðið á grundvelli af tengslum ættar eða vináttu viðkomandi í stað hæfis. Oft á kostnað fagmenntunar tilheyrandi starfa og getur átt við allt frá stöðuveitingum í opinberum fyrirtækjum til dómskerfis. Gott dæmi er að fjármálaráðherra Íslands var dýralæknir!, ber þó mikla virðingu fyrir þeirri stétt
2. Eftirlit og eftirlitsstofnanir
Skortur hefur verið á nægjanlega öflugu Fjármálaeftirliti, samkeppnis- og skattaeftirliti. Jafnframt vantar eðlilegar reglur og ramma sem stuðla að heilbrigðara viðskiptalífi og varna kennitöluflakki og þvíumlíku.
3. Byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í
Í þjóðareðlinu og meðal ráðamanna er tilhneiging til að byrgja brunninn þegar hann er tekinn að fyllast af börnum. Aðgerðir oft eftirábyggjandi í stað fyrirbyggjandi. Reynsla mín eftir nám, rannsóknir og störf á Norðurlöndunum er að aðgerðir eru mun meira fyrirbyggjandi.
4. Eigendur, bankastjórar og stjórnir bankanna eru ábyrgir
Eigendur banka létu bankana lána fyrirtækjum sínum gríðarlegar upphæðir. Þannig voru lán til ákveðinna fyrirtækjablokka jafnvel yfir 50% af eiginfjárgrunni ákveðins banka. Reglur peningamarkaðssjóða voru margbrotnar.
5. Ákveðnir lögfræðingar og endurskoðendur eru ábyrgir
Þeir sem gengu erinda eigenda banka og stórfyrirtækja.
6. Aðferðafræði við yfirtöku ríkisins á Glitnir banka
Margt var ábótavant, einkum fagmennska, og keðjuverkun átti sér stað. Þó sýnir skýrslan að bönkunum yrði alls ekki bjargað á þessum tímapunkti.
7. Stjórnmálamenn brugðust
Stjórnmálamenn eiga að setja heilbrigðar leikreglur fyrir samfélagið og sjá til þess að til staðar sé stjórnsýsla fyrir góða framkvæmd þeirra. Ljóst er að þeir brugðust, og þarf að taka upp betri aðferðafræði hjá þeim. Auk þess í huga höfundar efi um að ákveðnir þingmenn hafi gert alveg hreint fyrir sínum dyrum. Vafalaust verður slíkt skoðað betur.
8. Hamfarir og fjármálakreppa sem riðu yfir alþjóða hagkerfið einkum haustið 2008
Bankakerfið í okkar litla og opna hagkerfi, með veikum gjaldmiðli, var gríðarlega stórt hlutfall af landsframleiðslu eða um 12,5 sinnum. Gjaldmiðillinn var, og er mjög veikur og minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi. Slíkt er ekki ávísun á stöðugleika. Þegar fjármálakreppan reið yfir var það berskjaldað.
9. Ekki hlustað á trúverðuga erlenda sérfræðinga
Góðar greiningar þeirra voru rakkaðar niður af stjórnmálamönnum sem og fjölmiðlum, sem meðal annars voru í eigu eigenda bankanna.
10. Fjölmiðlafrumvarpið
Það verður að segjast að Davíð Oddsson hafði rétt fyrir sér varðandi ákveðna þætti fjölmiðlafrumvarpsins, þó annað hafi verið gallað. Eignarhald ákveðinna aðila á fjölmiðlum er ein af ástæðum andvaraleysis þeirra. Þeir gátu haft mikil áhrif á almenningsálitið og sveigt það að sér.
11. Menntun og fjármálalæsi ábótavant
Almenningur var oft auðvelt fórnarlamb fjármálastofnanna þegar kom að óskynsamlegum lántökum. Margt fólk ruglar saman hugtökum eins og t.d. nafnvöxtum og raunvöxtum og áttar sig ekki á gengisáhættu. Kosningaslagorð og aðgerðir um 90% lán, hjá þjóð sem lengi hefur búið við vaxtaokur, er stór orsakavaldur hér.
12. Tímaleysi og áróður
Fólki var talin trú um að Íslendingar væru svo afskaplega ríkir! Höfundur skrifaði grein um þá hagfræðilegu blekkingu í Morgunblaðinu árið 2006 undir nafninu Íslendingar sjötta ríkasta þjóð í heimi. Þar kemur fram að mikil vinna og vinnuframlag hefur hér mest að segja og þar með fjarveru frá fjölskyldum með tilheyrandi félagslegum kostnaði. Þetta mun því miður aukast
13. Skortur á ákveðnu viðskiptasiðferði og skattfræði
Gráa svæðið var stórt, menn komust upp með ótrúlega hluti í viðskiptaumhverfinu. Hluti almennings virtist og virðist einnig ekki gera sér grein fyrir til hvers það er að greiða skatta.
14. Hagstjórn ábótavant, einkum frá árinu 2000 auk veikrar stjórnsýslu
Þensluhvetjandi aðgerðir, skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum og ýmis hagfræðileg lögmál í raun brotin. Að mörgu leyti var um að ræða gervihagvöxt keyrðan upp með lántökum.
15. Sala Landsbankans og Búnaðarbankans
Aðferðafræði sem beitt var og hverjir voru handvaldir sem kaupendur. Forkastanlega vinnubrögð sem meðal annars urðu til þess að formaður einkavæðingarnefndar sagði upp stöðu sinni með orðunum Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Enn frekar að söluverðið var meðal annars í formi láns frá hinum bankanum! Höfundur var þó ekki á móti sölu ríkisbanka.
16. Þjóðhagsstofnun var lögð niður
Um var að ræða hlutlausan greiningaraðila. Í staðinn tóku greiningardeildir bankanna við spám!
17. Gjafakvótakerfið
Aðferðafræði og framkvæmdin. Höfundur er þó ekki á móti kvóta á aðgengi að fiskimiðum, enda málið skyllt þar sem fjöldi útgerðamanna er í ættbálki mínum við nyrsta odda landsins.
Höfundur leyfir sér að vera bjartsýnn fyrir hönd hins nýja Íslands, enda býr mikill kraftur og áræði í þjóðinni. Þó er þörf á langtímastefnumótun, fyrirbyggjandi aðgerðum og öguðum vinnubrögðum. Auk þess siðfræðikennslu, minnkun efnishyggju, beitingu réttrar aðferðafræði og innrætingu ábyrgðakenndar sér í lagi hjá karlmönnum. Þá er mikilvægt að grunnþekking fjármála og hagfræði sé hluti af námi bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Fjöldi fólks og fjölskyldna á um sárt höfuð að binda sökum atriða hér talin upp í greininni. Höfundi er mikið í mun að þeir útrásargemlingar og aðrir sem tekið hafa peninga frá þjóðinni greiði sem allra mest til baka. Það kýs ég enn frekar en að þeir sitji í lengri tíma á kostnað skattgreiðenda á hvíldarheimilum svo sem Kvíabryggju.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2010 | 10:11
Gosið og ímynd Íslands
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2010 | 16:42
Þjóðfélag “A eða B?”
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 2008, en er hér skrifuð í mars í breyttri og uppfærðri mynd, (hún var einnig send Fréttablaðinu í lok mars en þar er að jafnaði löng bið eftir birtingu.) Þórhildur, amma mín heitin 11 barna móðir fædd í Þistilfirði í Norður Þingeyjarsýslu var vön að segja að góð vísa væri sjaldan of oft kveðin, sem á sannarlega við hér. Efnið hefur verið mér hugleikið frá unglingsárum og atburðir liðinna ára hafa minnt mig illilega á. Hægt er að bera saman tvö þjóðfélög A og B og spyrja sig hvoru muni vegna betur og borgurum þess.
Í þjóðfélagi A er ráðið í stöður eftir hæfni viðkomandi þar sem menntun og reynsla er talin nauðsynleg til ákveðinna starfa. Ákveðið jafnfræði er milli kynja og skoðana og skilningur á að eftir höfðinu dansa limirnir. Hér er átt við að stjórnendur og hæfni þeirra hafa áhrif á allt fyrirtækið eða stofnunina og þar með framleiðni. Þetta má einnig kalla að framleiðsluþættir viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis séu nýttir sem best til að ná ákveðnum hámarks afrakstri. Í slíku þjóðfélagi gilda að sjálfsögðu eðlilegar leikreglur á samkeppnismarkaði, fagleg ákvörðunartaka, reglur á útboðsmarkaði og gott eftirlit á sviði fjármála-, neytenda-, skatta- og samkeppnismála. Jafnframt eru reglur og rammar sem varna kennitöluflakki og þvíumlíku. Að sjálfsögðu mun þjóðfélag A svo ná til sín hluta af peningum sem sumir útrásarmenn hafa tekið frá þjóðinni, sem meðal annars gleymdi að setja almennilegt regluverk í kringum þjóðfélagið, nema hvað? Þeir vita jú margir að þessir fjármunir tilheyra landi og þjóð með réttu!
Í þjóðfélagi B er minni áhersla á að sá hæfasti sé ráðinn í hverja stöðu. Stöðuveitingar ráðast oft af tengslum ættar eða vináttu viðkomandi. Stöður verða oft athvarf fyrir fyrrum stjórnmálamenn eða leiðitama ungliða. Það er oft á kostnað fagmenntunar tilheyrandi starfa og getur átt við allt frá stöðuveitingum í opinberum fyrirtækjum til dómskerfis. Sama á stundum við í einkafyrirtækjum og bönkum. Einnig mætti nefna pólitískt skipaða skólastjóra. Þjóðfélag B leggur jafnframt ekki sérlega mikla áherslu á eftirlitsstofnanir.
Það á að vera skýr krafa í upplýstu lýðræðisþjóðfélagi að hæfasta fólkið með tilheyrandi fagmenntun og reynslu sé jafnan ráðið til starfa hverju sinni. Í tímanna rás hafa B ráðningarnar kostað þjóðfélagið hundruð eða jafnvel þúsundir milljarða. Ég geng reyndar reyndar svo langt að telja þetta eina af örsökum hrunsins. Vanhæfir stjórnendur eru ein af ástæðum þess að Íslendingar þurfa að vinna meira og lengur en aðrar þjóðir til að halda uppi góðum lífskjörum. Sá vinnutími mun nú frekar aukast, með tilheyrandi fjarvistum frá heimili og börnum, eins og flestir þekkja af eigin raun. Þetta hefur mikinn félagslegan kostnað í för með sér, því og fleiru verður gert betri skil síðar meir í grein. Sem dæmi um stöðuveitingar væri æskilegt að aðalbankastjóri Seðlabankans væri með doktorspróf í hagfræði, fremur en lögfræðingur, verkfræðingur eða viðskiptafræðingur eins og reyndin hefur verið síðustu 20 ár eða svo. Alþjóðleg starfsreynsla er líka nauðsynleg fyrir aðila sem ræðst til slíks verks. Núverandi Seðlabankastjóri uppfyllir loksins þessi skilyrði.
Það er einnig mikilvægt að hafa mann með tilheyrandi menntun og kunnáttu í starfi viðskiptaráðherra svo annað dæmi sé tekið. Þar er á ferð annar maður með doktorspróf í hagfræði sem veldur starfinu vel; leit væri að hæfari manni til starfans. Dómsmálaráðherra virkar einnig mjög traustvekjandi, síst vill maður eiginlega missa þessa 2 fagráðherra úr ríkisstjórninni! Þó maður hafi oft verið ósammála Þistilfirðingnum Steingrími Sigfússyni, er honum vorkunn að taka við þessu búi. Hann hefur staðið sig ágætlega og sýnt mikið þrek við mjög erfiðar aðstæður og oft sýnt góðan hagfræðilegan skilning sem stundum skorti áður fyrr. Það hefur aukið á erfiðleikana hans að hjörð hans er oft sundurleit. Hann og stærðfræðingurinn Pétur Blöndal hafa á síðustu árum sýnt meiri talnaþekkingu en margir aðrir þingmenn. Illugi Gunnarsson, kemur einnig oft með góð hagfræðileg inngrip og skýringar. Jóhönnu Sig. er hægt að virða fyrir margt; hún flutti meðal annars áður nokkur frumvörp um kennitöluflakk, og eins hefur hún staðið dyggan vörð um Íbúðarlánasjóð, þingflokkur Framsóknarmanna gerði reyndar slíkt hið sama.
Breyting á B vinnubrögðum er hagur fólksins og það er hagur þjóðfélagsins og skýlaus krafa morgundagsins og framtíðarinnar. Síðastliðið ár hafa málin þokast í rétta átt. Miklu betur má þó ef duga skal og enn meiri fræðsla og bylting hugarfars er nauðsynleg. Hvoru þjóðfélaginu vilt þú tilheyra, A eða B? Af hvorri tegundinni verður hið nýja Ísland og hin nýja Reykjavík? Gaman væri að fá sms skeyti í 698 2727 með vali þínu á hvort þjóðfélag þú kýst?
P.s. Það er ákveðin útúrdúr frá efni greinarinnar en verður að segjast að þó Davíð Oddsson hafi gert ýmiss mistök, hafði hann hárrétt fyrir sér varðandi ákveðna þætti fjölmiðlafrumvarpsins. Eignarhald auðmanna eins og Jóns Ásgeirs á fjölmiðlum er ein af orsökum hrunsins (þessi klausa var ekki sett inn í greinina sem send var til Fréttablaðsins / Vísis) enda mín reynsla að slíkt hamlar birtingu.
Bloggar | Breytt 11.4.2010 kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2010 | 18:23
Orsaki vanda
Grein úr Fréttablaðinu, nóvember 2009
Um orsakir vandans
Rekja má ýmsar orsakir þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Því miður hafa bæði stjórnvöld og almenningur í gegnum tíðina hugsað mest um að fást við afleiðingar vandans í stað þess að athuga orsakirnar. Vinnan og umræður hafa oftar en ekki snúist um aukatriði í stað aðalatriða. Þegar spurt er um ábyrgð bendir gjarnan hver á annan. Hér verða nokkur veigamikil atriði sem mega teljast helstu orsakavaldar óefnanna.
Eftirlit og eftirlitsstofnanir
Stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, Neytendastofa og Skattrannsóknarstjóri hafa oft reynst veikburða og máttlitlar og ekki nægilega sjálfstæðar og óháðar, jafnvel háðar pólitísku valdi. Það er með ólíkindum að viðskipti innherja og eigenda í bönkum hafi farið fram hjá Fjármálaeftirlitinu og stjórnvöldum. Þegar mál hafa svo verið tekin fyrir hefur rekstur þeirra tekið allt of langan tíma. Ágætar stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið hafa tæpast nægan mannafla til að vinna í stærstu málunum. Af þeim sökum er ekki tími til að vinna fljótt og skilvirkt í ýmsum umfangsminni málum, sem þó eru mikilvæg til að stuðla að heilbrigðu viðskiptaumhverfi. Niðurskurður fjármagns til þessarar stofnunar er því ekki góðar fréttir. Dæmi um óheilbrigði viðskiptaumhverfisins í áranna rás er hve ótrúlega auðvelt það hefur verið fyrir fyrirtæki að skipta um rekstrarfélög og kennitölur og þannig sleppa við skuldir, sem þannig falla oft á skattgreiðendur. Þessir viðskiptaósiðir eiga að mínu áliti stóran þátt í þeim vanda sem þjóðfélagið stendur nú frammi fyrir. Óhætt er að fullyrða að fjöldi aðila hafi tekið þátt í viðskiptalífinu án þess að eiga þangað erindi.
Mannauður og mannval
Í hverju þjóðfélagi skiptir miklu að ráðið sé í stöður eftir hæfni einstaklinga s.s. menntun og reynslu, en ekki eftir öðrum, óskyldum viðmiðum.Mér er minnistætt að í brúðkaupsveislu á Indlandi snemma á árinu var ég spurður af þarlendum manni hvort það væri rétt sem hann hefði lesið að fjármálaráðherra Íslands væri dýralæknir? Það fannst honum merkileg frétt að ekki skyldi í það starf veljast maður með menntun á sviði fjármála og hagfræði. Í sömu stjórn var viðskiptaráðherra sagnfræðingur. Þeir sem hafa stjórnað ráðuneytum, bönkum og eftirlitsstofnunum hér á landi hafa oft ekki haft viðeigandi bakgrunn. Hið sama má líklega segja um fréttamenn sem reynt hafa að kryfja flókin viðskiptamál, að þá hafi vantað þá þekkingu sem til þurfti. Eign og áhrif hagsmunaaðila og gerenda á sömu miðlum hafa bersýnilega haft mjög skaðleg áhrif á alla umræðu. Davíð Oddsson hafði líklega rétt fyrir sér um þörfina á fjölmiðlalögum, en skortur á slíkum lögum kann að vera ein orsök þess hve illa fór.
Menntun og fjármálalæsi
Á tímum uppsveiflunnar var almenningur ótrúlega auðvelt fórnarlamb bankanna þegar kom að óskynsamlegum lántökum. Auglýsingar bankanna voru oft villandi og þar má nefna margar auglýsingar um erlend lán árið 2007. Það er brýnt að grunnþekking fjármála sé hluti af námi bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Því miður ruglar margt fólk saman ýmsum hugtökum eins og t.d. nafnvöxtum og raunvöxtum. Í kjölfar auglýsinga og oft of mikillar efnishyggju hefur fólk svo tekið lán á fáránlegum kjörum. Kosningaslagorð Framsóknarflokksins á sínum tíma um 90% lán, hjá þjóð sem lengi hefur búið við vaxtaokur, eru einnig einn af orsakavöldum hér.
Vinna
Landsmenn voru lengi vel aldir upp við þann sannleik að Íslendingar væru svo ríkir, jafnvel sjötta ríkasta þjóð í heimi. Þá var ekki kafað bak við tölurnar og rýnt í skýringarnar sem eru meðal annars lengri vinnuvika en í flestum Evrópulöndum og atvinnuþátttakan er mest af löndum OECD. Þá er hlutfall kvenna á vinnumarkaði hátt og atvinnuþátttaka eldra fólks. Börn byrja fyrr að vinna hérlendis en í samanburðarlöndum og allmörg börn vinna með skóla, í fríum og svo framvegis. Þetta skýrir að miklu leyti ríkan hagvöxt undanfarin ár. Mikil vinna hefur því borið uppi lífskjörin, og til marks um það þjóðarþel má nefna orð eins og þrælduglegur, sem mér vitandi finnst ekki í tungumálum annarra þjóða. Önnur þrælaorð eru þrælskemmtilegur, þrælfyndinn og þrælgott. Ég vona svo sannarlega að þegar upp verður staðið verði hinn venjulegi launaþræll ekki einn um að taka ábyrgð sinna fjárhagslegu gjörða, heldur falli sú ábyrgð einnig á stjórnendur og eigendur banka og annarra fjármálafyrirtækja og stjórnmálamenn.
Hákon Þór Sindrason
Höfundur er framkvæmdastjóri
Bloggar | Breytt 11.4.2010 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2008 | 22:53
Draumur
Mig dreymdi sérstakan draum - ég svaf í 2 vikur frá 29. september og á þeim tíma fór þrír stærstu bankar landsins í þrot eða voru yfirteknir af ríkinu og einstaklingar, fyrirtækið og þjóðfélagið töpuðu ÞÚSUNDUM milljarða.
Bloggar | Breytt 14.10.2008 kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2008 | 22:49
Tölur og ábyrgð
Erlendar skuldbindingar Íslands voru 12.000.000.000.000 ( Tólf þúsund milljarðar )
Gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans 500.000.000.000 ( Fimm hundruð milljarðar)
Erlendar skuldbindingar nema því 24 földum gjaldeyrisvaraforða landsins. Talan er heildarskuldir þjóðarbússins þar með talið banka, fyrirtækja og einstaklinga. Eignir koma að sjálfsögðu á móti þessu. Skuldir bankanna eru yfir 50% af þessari tölu!
Eiginfjárhlutfall hinna mjög svo skuldsettu íslensku banka var eftirfarandi þann 30.júní; Kaupþing 11,2%, Glitnir 11,2%, Landsbankinn 10,3% og Straumur 25,4% (heimild: Vilhjálmur Bjarnason).
Ástæður hrunsins
Stærsta orsökin eru hamfarir sem riðið hafa yfir alþjóða hagkerfið- fjármálakreppa. Í okkar litla og opna hagkerfi var bankakerfið gríðarlega stórt hlutfall af landsframleiðslu eða um 12,5 sinnum landsframleiðsla, til samanburðar er Írlands 2 sinnum og Bretland 4 sinnum.
Annað atriði ber að nefna sem er að eigendur viðkomandi banka hafa látið bankana lána sínum fyrirtækjum gríðarlegar upphæðir (hér er ekki sagt að kjör á viðkomandi lánum hafi verið óeðlileg, slíkt þarf þó að rannsaka betur), mikið af því er í svokölluðum Sjóðsbréfum.
Hverjir eru ábyrgir?
a) Glitnis
b) Landsbankans
c) Kaupþing
Ímynd Íslands erlendis hefur beðið mikin álitshnekk samfara þessum hörmungum. Þessir atburðir eru auðvitað ekki einskorðaðir við Ísland til að mynda voru þrír helstu bankar Bretlands þjóðnýttir að hluta í dag mánudaginn 13.október.
Bloggar | Breytt 15.10.2008 kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)