Færsluflokkur: Bloggar

Laun bankamanna og hrunið

Nú höfum við þjóðin á skömmum tíma eignast 3 banka. 

Það er athyglisvert að skoða laun ýmissa bankamanna í fyrra samkvæmt tímariti Frjálsar verslunnar, ekki síst í ljósi hruns bankana á síðustu dögum. Tölurnar finnst manni alveg sláandi!, sem og starfslokasamningar sem gerðir hafa verið í gegnum tíðina flestir hverjir án sjáanlegrar árangursmælingar.  Hér eru nokkrar tölur um mánaðarlaun á árinu 2007: 

a)   Hreiðar Már, forstjóri Kaupþings banka kr. 61,867 milljón (auk kaupréttarsamninga auðvitað).

b)   Lárus Welding, forstjóri Glitnis kr. 26,458 milljón (fékk auk þess ef ég man rétt 200  milljónir þegar hann byrjaði).

c)   Steinþór Gunnarsson, forstöðumaður, verðbréfamiðlunar Landsbankans kr. 29,473 milljón.

d)   Kristján Arason, framkvæmdastjóri Eignastýringar Glitnis kr. 19,1 milljón (eiginmaður Þorgerðar Katrínar, sá sem að skattgreiðendur greiddu fyrir til að fara á úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum Frakkaland – Ísland hann var þá að fara í annað skipti.)

 

Það er svolítið hætt við því að margir þessir þurfi að lækka í launum samfara því að þetta verði ríkisbankar.  Jafnvel fara niður í laun sem verða sem nemur launum forseta Íslands eða einungis kr. 1,774 milljón á mánuði.

Ég skoða kannski við tækifæri hve hátt hlutfall af gjöldum laun og starfsloksamningar hafa verið.

Íslensk stjórnmál og að sumu leyti viðskiptalífið einkennast öðru fremur af því að yfirleitt er enginn dreginn til ábyrgðar

Heimild: Frjáls Verslun, 6.tbl.2008 


Efnahagsástandið

Eftir að hafa rekið fyrirtæki til fjölda ára og fylgst með samfélagsumræðunni finn ég fyrir löngun að drepa niður penna.  Hér verða tekin fyrir fimm atriði með ákveðin innbyrðis tengsl þótt þau verði ekki krafin til mergjar á þessu stigi.

Nb.  Grein þessi er skrifuð um 20. september, og send inn til Fréttablaðsins þann 25. september nokkruð dögum fyrir hrun og ríkisvæðingu Glitnis sem kalla má örlagadaginn 29. september.  Sökum gríðarlegs hraða í atburðarásinni síðan þá og gífurlegs samdráttar í efnahagskerfinu má segja að allt það sem krefjist útgjaldaaukningar ríkis verði að skoða í enn varkárara samhengi.

1.   ESB og myntin
Ísland er eitt minnsta hagkerfi veraldar með sjálfstæða mynt.  Í alþjóðlegu umhverfi er sífellt  erfiðara að halda krónunni úti.  Helsta aðdráttarafl hennar eru ofurvextir sem laða að erlenda fjárfesta vegna vaxtamunar sem hægt er að græða á.  Lækkandi vextir,  órói og óöryggi fæla að sama skapi fjármagnið frá Íslandi með fallandi gengi.  Það hækkar svo verð innfluttra vara og eykur verðbólgu og  því er um ákveðinn vítahring að ræða sem þarf að bregðast hratt við.  Yfir 70% skulda íslenskra fyrirtækja eru í erlendri mynt.  Það virðist óumflýjanlegt að áður en langt um líður verði teknar upp aðildarviðræður við ESB og þá væntanlega tekin upp evra.  Um það hafa fjölmargir og æ fleiri aðilar ályktað meðal annars Samtök atvinnulífsins, fjármálastofnanir, kaupmenn, iðnrekendur, neytendur og ótal fleiri. Slíkt gerist þó ekki sem töfralausn á einni nóttu og alls ekki með núverandi ójafnvægi í hagkerfinu. 

2.  Menntun, öryggi og þjóðarsátt
Menntun er fjárfesting, og því betri sem kennararnir eru því meiri arður ætti að verða af fjárfestingunni.  Samhliða samfellu í skólastigum þyrfti að hækka laun leikskólakennara og kennara, þannig að sú fjárfesting sem felst í þriggja ára námi leikskólakennara og senn fimm ára námi kennara sé arðbær. Það er hagur þjóðfélagsins að í þessi störf veljist sem  hæfast fólk sem haldist í starfi.  Sífelld mannaskipti í þessum störfum hafa ekki góð félagsleg áhrif á börn.  Undirmannaðir leikskólar og „reddingar“ samfara því valda mikilli streitu og óskilvirkni í hagkerfinu.  Talsverður starfsflótti er úr kennarastétt og margir hæfir kennarar hafa farið í önnur störf.  Auðvitað er launahækkun ekki einhlít aðferð til að fá hæfasta fólkið í kennarastétt og þetta er vissulega einföldun á hagfræðilegu viðfangsefni þar sem launaskrið getur skilað sér út í verðlagið.   Aðra stétt mætti reyndar nefna, en það eru lögreglumenn sem halda uppi lögum og reglu til að tryggja öryggi fólksins í landinu.  Í þá stétt þarf líka að velja sem hæfast fólk og tryggja því sanngjörn laun miðað við menntun, ábyrgð og áhættu.  Það er mikil skömm að því að löggæslan búi við fjársvelti.  Ef umbuna ætti sérstaklega þessum starfsstéttum, leikskólastarfsfólki kennurum og löggæslumönnum, yrði að ná þjóðarsátt um það, ella yrði hætta á launaskriði og verðbólgu ef aðrar stéttir kæmu á eftir, og árangurinn yrði enginn þegar upp væri staðið.  Æskilegt væri að hafa einhvers konar árangurstengingu þar sem því yrði við komið til að arður og framleiðni yrðu sem mest. Ég segi allavega fyrir mig að ég væri til í að borga aðeins meira til samfélagsins fyrir það að dóttir mín fengi mjög góða menntun og að öryggi ríkti á götum borgarinnar.

3.  Menntun og framleiðni
Sem ráðgjafi fyrirtækja og einstaklinga hef ég því miður séð fjölmörg dæmi þess að fólk sé mjög auðveld „bráð“ bankanna þegar kemur að óskynsamlegum lántökum.  Bankarnir hugsa því miður fyrst og fremst um arð eigenda sinna burtséð frá því hvort skynsemi felist í lántökunni. Gott dæmi um þetta eru 90% lánin sem var eitt helsta slagorð Framsóknarflokksins í síðustu kosningum.  Í flestum tilfellum er bankinn búinn að tryggja sig fyrir áhættu. Auglýsingar banka eru stundum villandi og misvísandi, dæmi um það eru margar auglýsingar varðandi erlend lán á síðasta ári.  Fólk er stundum ginnt jafnvel á göngum verslunarmiðstöðva af fagurgölum sem lofa öllu fögru ef viðkomandi færir sig í viðskipti til viðkomandi bankastofnunnar. Ég fullyrði að það væri þjóðhagslega mjög hagkvæmt að bæta námskeiði inn í námskrá grunnskóla og menntaskóla, þó ekki væri nema einni önn sem væri grunnur í hagfræði og fjármálum.  Því miður þekkja margir til dæmis ekki mun á nafnvöxtum og raunvöxtum,  eða mismunandi vísitölum, þótt um að ræða fólk sem lokið hafi háskólanámi.  Þetta hef ég að meira að segja rekið mig á hjá þjónustufulltrúum í banka, sem í mörgum tilfellum hafa ekki tilskilda þekkingu til að ráðleggja fólki.

4.  Eftirlitsstofnanir
Það þarf að stórefla eftirlitsstofnanir svo sem Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið,  Neytendastofu, Neytendasamtökin og Skattrannsóknastjóra, þannig að þær geti brugðist hratt og markvisst við athugasemdum og kærum og kannað grunsamleg atvik í markaðs- og fjármálum. Þetta er tvímælalaust hagur almennings. Mál daga oft uppi í kerfinu og svör koma seint um síðir. Leikreglur á markaði eru oft ekki nógu skýrar og gráa svæðið vítt.  Núverandi viðskiptaráðherra virðist þó ætla að taka á þeim málum sem heyra undir hans ráðuneyti af röggsemi. Vonandi leiðir það til umbóta í þessum efnum

.
5.   Kennitöluskipti
Fyrirtæki okkar lendir í því árlega að einn eða tveir viðskiptavinir eða samkeppnisaðilar fara í þrot eða árangurslaust fjárnám.  Þetta getur að sjálfsögðu komið fyrir grandvart og heiðarlegt fólk.  Því miður sýnir reynslan að margir koma sér undan skuldunum með að stofna nýtt félag um reksturinn, en skuldirnar falla á kröfuhafa, oft lífeyrissjóði og opinbera aðila. Oft eru það sömu aðilarnir sem þetta stunda oftar en einu sinni enda siðferðisþröskuldurinn lágur hvað þetta varðar hjá sumum.  Flestar Evrópuþjóðir takmarka svigrúm stjórnenda sem lenda í gjaldþroti til þess að stofna og stýra nýjum fyrirtækjum með það að augnamiði að koma í veg fyrir svik og kennitöluskipti. Íslendingar eru miklir eftirbátar annarra í þessum efnum.  Þó hefur þetta batnað með árunum.  Meiri menntun í fjármálum og hagfræði og áætlanagerð myndi hér hjálpa mikið til.  Í Iðnskólanum og Hótel- og veitingaskólanum ætti til dæmis að leggja mikla áherslu á kennslu í þessum fögum þar sem nemendur þessara skóla fara oft út í rekstur.  Í ferðaþjónustu þar með talið í veitingarekstri, eru gjaldþrot því miður of tíð.  Meiri kunnátta í fjármálum og áætlanagerð kæmi að miklu gagni.

Höfundur er rekstrarhagfræðingur
hakon@netid.is

Ímynd Íslands og Reykjavíkur stefnumótunartillögur

 Þe Þessi grein birtist í Morgunblaðinu vorið 2006. Það tekur langan tíma að byggja upp ímynd þjóðar, en að sama skapi er hún brothætt og getur skaðast á stuttum tíma.  Dæmi eru áhrif skopmynda Jyllands-posten af Múhaðmeð spámanni en talið er að dönsk fyrirtæki muni tapa milljörðum króna vegna áhrifa myndbirtingana og ímynd Dana og danskra vara hefur beðið hnekk á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt að Ísland aðgreini sig frá samkeppnislöndunum. Markmið okkar ætti að vera Ísland sé þekkt erlendis sem land hreinleika og ósnortinnar náttúru.  Reykjavíkurborg gæti orðið þekkt sem hreinasta höfuðborg Evrópu sem myndi meðal annars vega upp á móti þeirri ímynd sem hún nú hefur sem skemmtanaborgin mikla, eins og niðurstöður könnunar Netsins um ímynd Íslands og Reykjavíkur sýndi. Sú grein birtist í Morgunblaðinu í nóvember 2004, einnig  niðurstöður rannsóknar fyrirtækisins meðal 600 neytenda á Norðurlöndunum um ímynd Íslands.  Eldri greinar um málefnið eru á vefsíðunni www.netid.is. 

Hrein torg - fögur borg
"Hrein torg fögur borg" var höfundi innrætt í æsku.  Reykjavíkurborg hefur alla burði til þessa verkefnis og  með réttri vinnu fagmanna, til að mynda í stefnumótun og markaðsmálum er hægt að skapa Íslandi og Reykjavík enn verðmætari sess erlendis. Í framkvæmd yrði að setja lög og reglur þegar hverskonar sóðaskapur er viðhafður svo sem rusli og sígarettustubbum hent á götum, flöskur mölvaðar og svo framvegis. Höfundi er minnistætt frá ferð til Flórída hve allt var hreint, en skilti þar boða 50 dollara sekt við að henda rusli á götur. Slagorð Reykjavíkurborgar gæti með tíð og tíma orðið  "Pure energy in Europe's cleanest capital!". Ímynd borgarinnar yrði þá skemmtileg, hrein og fögur.

 Styrkleikar og markaðsbreytur Íslands og höfuðborgarinnar
Umhverfi okkar og náttúran er dýrmætasta auðlind landsins, og dregur flesta ferðamenn til landsins.  Eftirfarandi atriði önnur aðgreina Ísland og Reykjavík og má nýta sem markaðsbreytur:
1. Náttúruauðlindir eins og jarðvarmi - Ein okkar allra dýrmætasta og aðgreinandi náttúruauðlind er jarðvarminn og heita vatnið. Auk Bláa Lónsins eru og verða sundlaugarnar einn af hornsteinum í ímynd Reykjavíkur og Íslands. Engin borg býður upp á (“spa”) heitar sundlaugar, heita potta, gufubað, heitar sturtur og margt fleira fyrir tæpar fjórar evrur.
2. Hreinleiki - Hreint land og bæir er nauðsynlegur grundvöllur fyrir mögulegan sess Reykjavíkur sem hreinasta höfuðborg í Evrópu. Sveitarfélög ættu að setja sér stefnumótandi markmið í þeim tilgangi.Tækifæri eru til staðar sem ættu að geta gert Reykjavik að hreinustu höfuðborg í Evrópu eða jafnvel í heimi!
3. Skemmtanir, næturlíf, afþreying og menning - Reykjavík hefur þegar skapað sér sess sem skemmtanaborg sem býður einnig upp á mikla afþreyingarmöguleika í næsta nágrenni eins og náttúru-,  jeppa-, jökla- og hestaferðir. Reykjavíkurborg státar einnig af mörgum og merkilegum söfnum og það sama á við víða á landsbyggðinni.

4. Gæði veitingastaða - Fyrsta flokks veitingastaðir eru í Reykjavík og standast samanburð við hvaða land sem er. Ákveðin offjárfesting er þó í atvinnugreininni. Hátt áfengisgjald og hráefnisverð kemur sér einnig illa varðandi samkeppnishæfni Reykjavíkur, ekki síst við samkeppnisborgir, til að mynda í Austur-Evrópu.

  

Þróun nýrra auðlinda og samkeppnishæfni
Rannsóknin á Norðurlöndunum sýndi að svarendur tengja Ísland frekar við hreina náttúru en stórfenglega, en þann sess hefur Noregur í huga þeirra. Íslendingar eiga nú stærsta þjóðgarð í Vestur-Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð.  Með slíkt áþreifanlegt tákn fyrir hreina og ósnortna náttúru er auðvelt að vekja áhuga fjölmiðla á að fjalla um landið og sannfæra almenning erlendis um að gæði eru einkennandi fyrir landið, íslenska framleiðslu og þjónustu. Myndin sýnir þjóðgarðinn og þau svæði sem nú eru vernduð, áhugaverð svæði og nýjar hugmyndir að verndarsvæðum. Tillögurnar varðandi þjóðgarð og hornstein voru settar fram í stefnumótunarhluta rannsóknarinnar frá 1998.  Hugmyndir okkar tóku ekki afstöðu með ákveðnum sjónarmiðum, hvorki eindreginnar náttúrverndar né óheftrar orkunýtingarstefnu, þar sem gert er ráð fyrir að virkjanir séu staðsettar fyrir utan friðaða svæðið.


Mannauðurinn á svo uppsprettu sína í landi hreinleikans! 


Ábyrgðaleysi

Við heimkomu úr ferðalagi frá Kúbu (sjá grein og upplýsingar á www.visitorsguide.is), heyrir maður dapurleg tíðindi. Sem gefa tilefni til skrifa og opnunar bloggsíðu. Byrgismálið, sem reyndar var byrjað áður en ég fór út, málefni Heyrnleysingjarskólans, Breiðavíkurmálið og fleira. Fréttir um þessi mál færa manni efasemdir um að búa í upplýstu lýðræðisþjóðfélagi, þar sem gott eftirlit er með fjármunum skattgreiðenda og vel sé hugsað um þá sem minna mega sín. Maður spyr sig óneitanlega hvernig getur slíkt gerst, hvar liggur ábyrgðin? Málefni Heyrnleysingjarskólans og Breiðavíkur eru mikil sorgarsaga og ótrúlegt að slíkt geti hafa gerst undir eftirliti Barnaverndarnefndar og viðkomandi ráðuneytis. Fór þetta fólk aldrei vestur á firði og kynnti sér mál og aðstöðu þessara drengja?. Ákveðin bót í máli er að borgarstjóri, forstjóri Barnaverndarstofu o.fl. virðast ætla að taka málið föstum tökum. Byrgismálið er eins og farsi, æ sorglegra með hverri viku, en málefni Byrgisins hafa heyrt undir þrjá ráðherra félagsmála Framsóknarflokksins á nokkrum árum. Hver virðist benda á annan. Hvernig er mögulegt að starfssemi sem þessi sem fær fjármuni frá skattgreiðendum hafi verið án eftirlits viðkomandi ráðuneytis? Nógu dýr hafa stólaskiptin hjá ráðherrum verið með tilheyrandi eftirlaunagreiðslum og fleiru að þetta bætist ekki við auk óláns skjólstæðinga sem auðvitað er meginatriðið. Það er því miður mikil meinseimd í þjóðfélaginu að ábyrgð virðist oft hvergi liggja þegar að kreppir skóinn! Menn benda hver á annan og á endanum eru það skattgreiðendur sem borga brúsann (þar með fyrir þá sem fá vistun á Kvíabryggju). Siðferðisþröskuldurinn virðist mun lægri hér á landi en til að mynda á Norðurlöndunum þar sem ráðherrar og fleiri axla ábyrgð gerða sinna. Það þarf að eiga sér stað ákveðin bylting hugarfars í þessum efnum. Ég kalla eftir því að viðkomandi aðilar axli ábyrgð þessara mála.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband